Ísland kallar – Um Þjórsá og Þjórsárver

Daginn sem bruninn varð í Lækjargötu í Reykjavík um daginn sagði Vilhjálmur borgarstjóri í sjónvarpinu að miklu máli skipti að endurskapa hin gömlu hús sem brunnu í götunni. Hin gamla götumynd húsa þarna við Lækjargötu væri mjög dýrmæt, eins og hús Bernhöftstorfunnar. Hér á eftir er kafli úr grein Halldórs Laxness frá árinu 1971, "Brauð Reykjavíkur". Hún birtist í greinasafni Halldórs, Yfirskygðir staðir. Hún er athyglisverð lesning bæði þá og nú. Hana má finna í bókinni Ísland í aldanna rás 1951–1975 eftir Illuga Jökulsson. Halldór auglýsir eftir eiganda húsanna á Bernhöftstorfu og ábyrgð hans gagnvart verðmætum.

"Þegar menn heimta að þessi látlausu hús endurminnínganna á bernhöftstorfunni verði afmáð, og bera fyrir sig að þau séu úr sér geingin, þá er það ónóg röksemd. Þessi gömlu hús eru jafn ófúin og þau hefðu verið reist í gær. Hitt er satt að um viðhald þeirra hefur verið rekin samskonar pólitík og sveitastúlkur reka þegar þær láta tennurnar í sér grotna niður og verða að geiflum svo þær geti síðan farið suður og keypt sér falskan góm. Eigandi þessara húsa hefur verið sálarlaus persóna og ekki skilið við hvað er átt þegar talað er um bernskuminníngar Reykjavíkur; kanski ættaður að norðan. Aðrir eigendur eru skyldir til, þó ekki væri nema sóma síns vegna, að halda húsum sínum í bærilegu ástandi til þess að geta litið framaní samborgara sína. Hvaða draslari er þetta? Að minstakosti ekki sá reykvíski snyrtibóndi" ... Og hér setur Halldór nafn þáverandi borgarstjóra.

Þessi skrif Halldórs voru innlegg í umræðu er átti sér stað snemma á áttunda áratug síðustu aldar um hvort rífa ætti gömul, niðurnídd hús sem stóðu í miðbæ Reykjavíkur. Sitt sýndist hverjum. Opinberir aðilar vildu láta rífa þau og reisa stjórnarráðshús, kassalaga og klunnalega byggingu, algerlega úr stíl við Menntaskólann og Stjórnarráðið. Fólk heyrðist líka tala sín á milli um að langbest væri að rífa húsin og malbika þarna bílastæði sem það taldi miðbæinn vanta undir drossíur. En svo voru aðrir sem töldu að ímynd miðbæjarins og þar með borgarinnar biði skaða af, yrðu húsin rifin. Þetta var drífandi fólk sem fannst stefna í óefni. Samtök um verndun húsanna voru stofnuð og hétu Torfusamtökin. Morgun einn um vor fyrir rúmum 30 árum risu syfjaðir borgarbúar upp við dogg og urðu aldeilis undrandi. Hópur fólks hafði safnast saman á Bernhöftstorfu árla morguns og málað gömlu húsin þar svo að þau litu út eins og nýuppgerð. Viðhorf borgarbúa breyttust gangvart hinum gömlu húsum. Nú sáu fleiri gagnsemi þeirra og fegurð. Saga þeirra var líka merkileg.

Ummæli borgarstjóra um hús Bernhöftstorfu í sjónvarpinu um daginn er skýr og afdráttarlaus staðreynd þess að viðhorf allra, líka stjórnvalda, breytast í áranna rás þegar verndun er annars vegar. Það er líka staðreynd, að ef hugsandi fólk hefði ekki vaknað fyrir allar aldir einn laugardagsmorgun og sýnt borgarbúum með verkum sínum þann valkost að vernda þessi gömlu hús í hjarta borgarinnar, þá væri Bernhöftstorfan ekki á sínum stað í dag. Fyrir utan það að vera augnayndi í höfuðborginni, þá dafna í húsum Bernhöftstorfu bæði viðskipti og menning á þeirra eigin forsendum, vegna þess að þau fengu að standa í friði. Svona gömul og einstök gefa þau tóninn í tilbrigðum miðbæjarins. Þau standa vafalaust á verðmætu byggingarlandi, en þau eru ómissandi, það skilja allir.

Engin stækkun friðlands í Þjórsárverum til suðurs því að undanskilið er nákvæmlega svæði sem Landsvirkjun hefur ætlað undir Norðlingaöldulón? Þar með engin Þjórsárver inn á heimsminjaskrá UNESCO? Horfinn Búðafoss í Þjórsá? Horfinn Urriðafoss í Þjórsá? Sokkin Hagaey, hólmar og flúðir í Þjórsá? Tæmdur árfarvegur neðan stíflna í Þjórsá? Sokknar jarðir meðfram Þjórsá? Sokkin híbýli bónda á bökkum Þjórsár? Tuttugu og sjö milljón tonn af vatni ofan stíflugarða Þjórsár á hripleku sprungusvæði Suðurlandsskjálfta? Hækkuð grunnvatnsstaða sem setur sveitir á flot við Þjórsá? Fuglalífi eytt við Þjórsá? Gengd 6.000 laxa á ári upp Þjórsá tortímt? Hrygningarstöðvar þorsks undan ósum Þjórsár í hættu? Lífríki við Þjórsá í víðasta skilningi þess orðs stórskaðað? Útsýni og fegurð Þjórsár í byggð horfin og aldrei endurheimt? Fornminjar, m.a. ævaforn þingstaður og vöð í Þjórsá síðan um landnám, glataðar? Stórfelld rýrnun starfsgrundvallar og jarðahlunninda við Þjórsá og þá tekjumöguleika? Aðrar hugmyndir og atvinnutækifæri en virkjanir í Þjórsá burtreka? Stórfellt rask og sjónmengun við Þjórsá uppúr og niðrúr vegna vegalagninga? Þjórsá afgirt og viðvörunarflautur pípa? Friður og samkomulag í sveitum meðfram Þjórsá einskis virði? Engin atvinna í sveitum til framtíðar af virkjunum Þjórsár? Engar tekjur sumra sveitarfélaga af "ævintýrunum við Þjórsá"? Varnaðarorð færustu sérfræðinga um umhverfislega vá og vá gagnvart öryggi fólks við Þjórsá höfð að engu? Álver í Þorlákshöfn? Álver í Helguvík? Álver á Húsavík? Bundnar hendur komandi kynslóða? Náttúruímynd Íslands glötuð? Árangur áfram og ekkert stopp? Nýir tímar – á traustum grunni?

Manni verður á að spyrja eins og Halldór Laxness. Ég auglýsi eftir því hverjir standi fyrir, ráði og ráðstafi náttúru Þjórsár, Þjórsárvera og alls Íslands samkvæmt hinum virðingarfulla verkefnalista ríkisstjórnar "tiltekins lands" hér fyrir framan. Ég geri orð Halldórs Laxness að mínum með dálitlum breytingum sem falla að tilefninu.

– Ráðsmenn þessa lands hafa verið sálarlausar persónur og ekki skilið við hvað er átt þegar talað er um varðveislu íslenskrar náttúru; kannski ættaðir frá Mars? Aðrir landsmenn eru skyldir til, þó ekki væri nema sóma síns vegna, að halda umhverfi sínu í bærilegu ástandi til þess að geta litið framan í samborgara sína. Hvaða draslarar eru þetta? Að minnsta kosti ekki sá sunnlenski snyrtibóndi, Árni M. Mathiesen eða þeir reykvísku snyrtibændur, Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson...

Í næstu framtíð verða Íslendingar nútímans fyrirmynd afkomenda sinna og annarra þjóða, vegna þess að hlúð var frá því núna að viðskiptum og menningarlífi á forsendum náttúruverndar. Fyrirmynd, vegna þess að hlúð var frá því núna að nýjum hugmyndum og tækifærum með náttúru Íslands í forgangi, á eins sjálfsagðan hátt og að á eftir vetri kemur vor, á eftir nótt kemur dagur. Fyrirmynd, vegna þess að íslensk náttúra fékk að standa í fegurð sinni, hrikaleik sínum og hinu smáa, í friði. Fékk að standa eins og hún er, – dýrmæt, einstök og ómissandi á þessari jörð.

En til þess að það megi verða, þá þurfum við að velja, – núna. Við veljum – og verndum. Veljum bjartsýni og virðingu við landið okkar, náttúru þess og ímynd og um leið ímynd okkar sjálfra óhjákvæmilega, af því að við erum Íslendingar. Ísland kallar á okkur sér til bjargar. Ekki eftir einhver ár, heldur núna. Ísland kallar mig, það kallar þig, – hinn 12. maí.

Höfundur er Gnúpverji og Hafnfirðingur, móðir og opinber starfsmaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband