Færsluflokkur: Bloggar

Nei, nei, auðvitað ekki

„Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila...“ (Úr ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokks­ins á www.xd.is – Landsfundur – Landsfundur 2007: Ályktun um umhverfismál og auðlindanýtingu).

 

„Þeir vilja endilega koma að þessu með einhverjum hætti og eru reiðbúnir að leggja fram talsvert fé.“ (Fréttablaðið 30. apríl 2007. Ummæli orkumálastjóra um áhuga þýsks orkurisa á íslenskum orkumálum, sér í lagi djúpborunum).

 

„Verðið sem Geysir Green Energy er tilbúið að greiða fyrir hlut ríkisins er langt umfram verðmat ríkisins sem þó hefur ekki verið gefið upp.“ (Morgunblaðið 1. maí 2007 um sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja).

 

Er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn sjái kosti einkavæðingar? Er það oft kosningamál hjá Sjálfstæðisflokki, það sem hann framkvæmir á miðju kjörtímabili? Hækka orkulindir í verði með hverri mínútunni sem líður? Býður ríkisstjórnin íslenskar orkulindir til sölu á undirverði? Bjóða stjórnvöld landeigendum núna bætur fyrir aðgang að orkulindum á því sama undirverði? Munu erlendir orkurisar leggja fram „talsvert fé“ og „koma að þessu“? Verður örtröð jakkafatamanna með þúsundkalla upp úr brjóstvasanum í túnfætinum hjá hverjum bónda og á hverri hreppsskrifstofu, örtröð við hvern einasta læk, foss og hver? Getur almenningur keypt aftur orkulindir sem búið er að selja fáeinum einkaaðilum eins og kvótann?

 

Ef orkulindir eru einkavæddar, verður þá skrúfað frá krana öðru vísi en að borga einhverju sem kallar sig Group? Verður þá kveikt ljós öðru vísi en að borga einhverju myrkrafélagi í útlöndum sem enginn man almennilega hver á, en það á samt rafmagnið? Verður þá hellt á könnuna öðru vísi en að borga einhverjum bankanum sitt rétta okurverð fyrir? Öðru vísi en að með hverri kaffibunu renni dálítill viðbótardreitill í hinn bakkafulla vaxtalæk sem til bankanna rennur undan hallandi fjárhag heimila og hækkandi þjónustu? Verður þá almenningur í gapastokki gjaldtökunnar? Mun hann horfa á kunnugleg andlit úr viðskiptageiranum fíflast og hafa gaman af? Fíflast, eftir að hafa fengið frá stjórnvöldum á silfurfati dálítið sem gat ekki annað en hækkað í verði hundraðþúsundfalt. Munu kunnuglegir karakterar (gjarnan í félagsskap Eltons gamla John) hafa gaman af frelsi fárra á kostnað heillar þjóðar sem lét enn einu sinni plata sig?

 

Verður þá öldin önnur og ekkert eftir, því barmafullur bikar orkulinda Íslands og náttúruperlna verður drukkinn í botn af fyrrgreindum aðilum?

 

Svar: Nei, nei, auðvitað ekki. En þá þurfum við að velja að eiga Ísland heldur sjálf þann 12. maí.

 

Kristín Guðmundsdóttir

Höfundur er Íslendingur, Gnúpverji og Hafnfirðingur, móðir og opinber starfsmaður


Ísland kallar – Um Þjórsá og Þjórsárver

Daginn sem bruninn varð í Lækjargötu í Reykjavík um daginn sagði Vilhjálmur borgarstjóri í sjónvarpinu að miklu máli skipti að endurskapa hin gömlu hús sem brunnu í götunni. Hin gamla götumynd húsa þarna við Lækjargötu væri mjög dýrmæt, eins og hús Bernhöftstorfunnar. Hér á eftir er kafli úr grein Halldórs Laxness frá árinu 1971, "Brauð Reykjavíkur". Hún birtist í greinasafni Halldórs, Yfirskygðir staðir. Hún er athyglisverð lesning bæði þá og nú. Hana má finna í bókinni Ísland í aldanna rás 1951–1975 eftir Illuga Jökulsson. Halldór auglýsir eftir eiganda húsanna á Bernhöftstorfu og ábyrgð hans gagnvart verðmætum.

"Þegar menn heimta að þessi látlausu hús endurminnínganna á bernhöftstorfunni verði afmáð, og bera fyrir sig að þau séu úr sér geingin, þá er það ónóg röksemd. Þessi gömlu hús eru jafn ófúin og þau hefðu verið reist í gær. Hitt er satt að um viðhald þeirra hefur verið rekin samskonar pólitík og sveitastúlkur reka þegar þær láta tennurnar í sér grotna niður og verða að geiflum svo þær geti síðan farið suður og keypt sér falskan góm. Eigandi þessara húsa hefur verið sálarlaus persóna og ekki skilið við hvað er átt þegar talað er um bernskuminníngar Reykjavíkur; kanski ættaður að norðan. Aðrir eigendur eru skyldir til, þó ekki væri nema sóma síns vegna, að halda húsum sínum í bærilegu ástandi til þess að geta litið framaní samborgara sína. Hvaða draslari er þetta? Að minstakosti ekki sá reykvíski snyrtibóndi" ... Og hér setur Halldór nafn þáverandi borgarstjóra.

Þessi skrif Halldórs voru innlegg í umræðu er átti sér stað snemma á áttunda áratug síðustu aldar um hvort rífa ætti gömul, niðurnídd hús sem stóðu í miðbæ Reykjavíkur. Sitt sýndist hverjum. Opinberir aðilar vildu láta rífa þau og reisa stjórnarráðshús, kassalaga og klunnalega byggingu, algerlega úr stíl við Menntaskólann og Stjórnarráðið. Fólk heyrðist líka tala sín á milli um að langbest væri að rífa húsin og malbika þarna bílastæði sem það taldi miðbæinn vanta undir drossíur. En svo voru aðrir sem töldu að ímynd miðbæjarins og þar með borgarinnar biði skaða af, yrðu húsin rifin. Þetta var drífandi fólk sem fannst stefna í óefni. Samtök um verndun húsanna voru stofnuð og hétu Torfusamtökin. Morgun einn um vor fyrir rúmum 30 árum risu syfjaðir borgarbúar upp við dogg og urðu aldeilis undrandi. Hópur fólks hafði safnast saman á Bernhöftstorfu árla morguns og málað gömlu húsin þar svo að þau litu út eins og nýuppgerð. Viðhorf borgarbúa breyttust gangvart hinum gömlu húsum. Nú sáu fleiri gagnsemi þeirra og fegurð. Saga þeirra var líka merkileg.

Ummæli borgarstjóra um hús Bernhöftstorfu í sjónvarpinu um daginn er skýr og afdráttarlaus staðreynd þess að viðhorf allra, líka stjórnvalda, breytast í áranna rás þegar verndun er annars vegar. Það er líka staðreynd, að ef hugsandi fólk hefði ekki vaknað fyrir allar aldir einn laugardagsmorgun og sýnt borgarbúum með verkum sínum þann valkost að vernda þessi gömlu hús í hjarta borgarinnar, þá væri Bernhöftstorfan ekki á sínum stað í dag. Fyrir utan það að vera augnayndi í höfuðborginni, þá dafna í húsum Bernhöftstorfu bæði viðskipti og menning á þeirra eigin forsendum, vegna þess að þau fengu að standa í friði. Svona gömul og einstök gefa þau tóninn í tilbrigðum miðbæjarins. Þau standa vafalaust á verðmætu byggingarlandi, en þau eru ómissandi, það skilja allir.

Engin stækkun friðlands í Þjórsárverum til suðurs því að undanskilið er nákvæmlega svæði sem Landsvirkjun hefur ætlað undir Norðlingaöldulón? Þar með engin Þjórsárver inn á heimsminjaskrá UNESCO? Horfinn Búðafoss í Þjórsá? Horfinn Urriðafoss í Þjórsá? Sokkin Hagaey, hólmar og flúðir í Þjórsá? Tæmdur árfarvegur neðan stíflna í Þjórsá? Sokknar jarðir meðfram Þjórsá? Sokkin híbýli bónda á bökkum Þjórsár? Tuttugu og sjö milljón tonn af vatni ofan stíflugarða Þjórsár á hripleku sprungusvæði Suðurlandsskjálfta? Hækkuð grunnvatnsstaða sem setur sveitir á flot við Þjórsá? Fuglalífi eytt við Þjórsá? Gengd 6.000 laxa á ári upp Þjórsá tortímt? Hrygningarstöðvar þorsks undan ósum Þjórsár í hættu? Lífríki við Þjórsá í víðasta skilningi þess orðs stórskaðað? Útsýni og fegurð Þjórsár í byggð horfin og aldrei endurheimt? Fornminjar, m.a. ævaforn þingstaður og vöð í Þjórsá síðan um landnám, glataðar? Stórfelld rýrnun starfsgrundvallar og jarðahlunninda við Þjórsá og þá tekjumöguleika? Aðrar hugmyndir og atvinnutækifæri en virkjanir í Þjórsá burtreka? Stórfellt rask og sjónmengun við Þjórsá uppúr og niðrúr vegna vegalagninga? Þjórsá afgirt og viðvörunarflautur pípa? Friður og samkomulag í sveitum meðfram Þjórsá einskis virði? Engin atvinna í sveitum til framtíðar af virkjunum Þjórsár? Engar tekjur sumra sveitarfélaga af "ævintýrunum við Þjórsá"? Varnaðarorð færustu sérfræðinga um umhverfislega vá og vá gagnvart öryggi fólks við Þjórsá höfð að engu? Álver í Þorlákshöfn? Álver í Helguvík? Álver á Húsavík? Bundnar hendur komandi kynslóða? Náttúruímynd Íslands glötuð? Árangur áfram og ekkert stopp? Nýir tímar – á traustum grunni?

Manni verður á að spyrja eins og Halldór Laxness. Ég auglýsi eftir því hverjir standi fyrir, ráði og ráðstafi náttúru Þjórsár, Þjórsárvera og alls Íslands samkvæmt hinum virðingarfulla verkefnalista ríkisstjórnar "tiltekins lands" hér fyrir framan. Ég geri orð Halldórs Laxness að mínum með dálitlum breytingum sem falla að tilefninu.

– Ráðsmenn þessa lands hafa verið sálarlausar persónur og ekki skilið við hvað er átt þegar talað er um varðveislu íslenskrar náttúru; kannski ættaðir frá Mars? Aðrir landsmenn eru skyldir til, þó ekki væri nema sóma síns vegna, að halda umhverfi sínu í bærilegu ástandi til þess að geta litið framan í samborgara sína. Hvaða draslarar eru þetta? Að minnsta kosti ekki sá sunnlenski snyrtibóndi, Árni M. Mathiesen eða þeir reykvísku snyrtibændur, Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson...

Í næstu framtíð verða Íslendingar nútímans fyrirmynd afkomenda sinna og annarra þjóða, vegna þess að hlúð var frá því núna að viðskiptum og menningarlífi á forsendum náttúruverndar. Fyrirmynd, vegna þess að hlúð var frá því núna að nýjum hugmyndum og tækifærum með náttúru Íslands í forgangi, á eins sjálfsagðan hátt og að á eftir vetri kemur vor, á eftir nótt kemur dagur. Fyrirmynd, vegna þess að íslensk náttúra fékk að standa í fegurð sinni, hrikaleik sínum og hinu smáa, í friði. Fékk að standa eins og hún er, – dýrmæt, einstök og ómissandi á þessari jörð.

En til þess að það megi verða, þá þurfum við að velja, – núna. Við veljum – og verndum. Veljum bjartsýni og virðingu við landið okkar, náttúru þess og ímynd og um leið ímynd okkar sjálfra óhjákvæmilega, af því að við erum Íslendingar. Ísland kallar á okkur sér til bjargar. Ekki eftir einhver ár, heldur núna. Ísland kallar mig, það kallar þig, – hinn 12. maí.

Höfundur er Gnúpverji og Hafnfirðingur, móðir og opinber starfsmaður.


Samviskubit

EF STÆKKA á álver á höfuðborgarsvæðinu, hvers vegna ekki að gera það í Kópavogi? Svo mætti leggja háspennulínur gegnum Garðabæ. Myndu Garðbæingar ekki vilja svoleiðis hjá sér? Í Reykjavík hagar þannig til að fallhæðin frá gömlu stíflunni í Elliðaám er svo prýðileg að það mætti hafa tvö lón í hallanum þaðan og niður að sjó. Ótrúlega hagkvæmt. Þess vegna verður sjálfsagt stíflað þar.

Ég heyrði fyrir nokkrum dögum á tal tveggja Hafnfirðinga. Þeir voru sammála, sögðu: "Já, já, við erum Hafnfirðingar og við viljum stækkun, af því að við fáum svo mikla peninga." Ég segi: Þá fjármuni sem Alcan veifar framan í Hafnfirðinga eiga fjölskyldur í Hafnarfirði aldrei eftir að sjá, því þeir hverfa í þenslu og brambolt.

Hvers vegna siglir Alcan með hráefni burt frá Ástralíu, hingað norður undir Íshaf? Hingað, þar sem heitir Straumsvík við Hafnarfjörð? Ef Alcan vill svo mjög veita fólki atvinnu, hvers vegna reisir það ekki álver sín á Indlandi? Þar búa margir. Þar er mikil ómegð. Á Indlandi eru mörg, stór vatnsföll. Hvers vegna siglir það með drekkhlaðin skip af hráefni framhjá Indlandi, burt frá foreldrum svangra barna, burt frá fátæku fólki sem vantar vinnu? Það er vegna þess að það er gott að græða í Hafnarfirði. Gróðinn, ástæða hnattsiglingarinnar, myndast úr virkjunum, því þaðan er raforkan í álver tekin.

Álverið í Straumsvík gengur ekki á góðmennsku og velvild Alcan gagnvart Hafnarfirðingum. Álverið í Straumsvík gengur fyrir gróða úr sunnlensku vatnsfalli sem heitir Þjórsá. Þaðan kemur grundvöllurinn og gróðinn í formi raforku sem er svo til ókeypis. Svo mikið ókeypis að það má enginn vita það! Annars væri Alcan ekki í Hafnarfirði. Alcan reisti heldur ekki Hafnarfjörð. Það gerðu Hafnfirðingar sjálfir.

Enginn Hafnfirðingur getur tekið ákvörðun með eða móti stækkun álvers, öðru vísi en að hafa bein áhrif á hvað verður um íslenska náttúru. Án þess að hlutast til um á beinan hátt, hvernig henni reiðir af. Ekkert byggðarlag og enginn bær á Íslandi fær sitt álver án þess að leggja hramminn á óspillta íslenska náttúru.

Orðið íbúalýðræði hefur fengið nýstárlega merkingu í Hafnarfirði. Meðan stjórnmálaflokkar reyna að koma sér saman um þak á kynningarkostnaði vegna komandi alþingiskosninga og ríkið hyggst verja um 15 milljónum til sömu hluta, eyðir erlenda álfyrirtækið Alcan fleiri tugum milljóna til áróðurs í Hafnarfirði, til að hafa sitt fram í komandi kosningu. Þar eru engar hömlur, ekkert þak, á meðan einstaklingar í Hafnarfirði og víðar hafa í andófi sínu snúið við tómum vösum sínum. Svona er lýðræðið í Hafnarfirði!

Og það upplýsist einnig hér með að þegar þessi grein er skrifuð, tveim dögum fyrir kosningu í Hafnarfirði, þá eru enn landeigendur við Þjórsá sem enginn virkjunaraðili hefur rætt við, þrátt fyrir fullyrðingar tveggja ráðherra í útvarpi þennan sama dag um að samningaviðræður við landeigendur séu vel á veg komnar.

Alcan lætur Hafnfirðinga hafa samviskubit. Sl. föstudag kom inn um bréfalúguna plakat með yfir 400 andlitsmyndum starfsmanna álversins í Straumsvík. Nöfn þeirra allra voru aftan á. Skilaboðin voru þessi: Hafnfirðingar, ef þið kjósið ekki með stækkun álversins, þá missa starfsmenn álversins vinnuna.

En hér er ekki verið að kjósa um hvort starfsmenn álversins missa vinnuna. Það styðja það nefnilega engin rök að neinn starfsmaður missi þar vinnu. Það stendur ekki til að loka svipuðum álverum annars staðar í heiminum. Forsvarsmenn Alcan segja það bara til að fá sínu framgengt.

Samviskubit. Við ættum að hafa samviskubit, Hafnfirðingar, ef við segjum ekki Nei við stækkun álvers. Við ættum að hafa samviskubit yfir að binda hendur komandi kynslóða. Við ættum að hafa samviskubit yfir að gera ímynd bæjarins okkar verri og fyrir að valda mengun. Við ættum að hafa samviskubit yfir að fjötra og eyðileggja sunnleskt vatnsfall, Þjórsá. Við ættum að hafa samviskubit yfir að sökkva jörðum fyrir austan fjall. Við ættum að hafa samviskubit yfir að eyðileggja lífríki við Þjórsá. Við ættum að hafa samviskubit yfir að taka þátt í að þurrka upp orkuinnistæðu Íslands, uppþurrkun sem þegar er til á teikniborðinu. Við ættum að hafa samviskubit yfir að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir megi njóta hluta sem við höfum notið. Við ættum líka fremur að hafa samviskubit yfir að gera nýjum hugmyndum, t.d. hugmyndum um eldfjallagarð á Reykjanesi hugsanlega ómögulegt að þróast. Við ættum að hafa samviskubit yfir öllum frumkvöðlunum, hvort sem þeir eru hámenntaðir eða ekki, sem hafa kunnáttu og færni sem á sér ekki hliðstæðu, hvergi í veröldinni, en fá ekki brautargengi fyrir stóriðjustefnu og þröngsýni stjórnvalda.

Þeir hafa líka andlit og þeir hafa líka nöfn. En þeir koma ekki inn um bréfalúguna hjá fólki. Hvað eru það mörg andlit? Hvað eru það mörg nöfn? Fjölskyldur sem missa land sitt undir jökulvatn, hvað eru það mörg nöfn?

Við þurfum að muna eftir þeim og segja Nei þann 31. mars.

Höfundur er Gnúpverji og Hafnfirðingur, móðir og opinber starfsmaður.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband