Ég heyrði fyrir nokkrum dögum á tal tveggja Hafnfirðinga. Þeir voru sammála, sögðu: "Já, já, við erum Hafnfirðingar og við viljum stækkun, af því að við fáum svo mikla peninga." Ég segi: Þá fjármuni sem Alcan veifar framan í Hafnfirðinga eiga fjölskyldur í Hafnarfirði aldrei eftir að sjá, því þeir hverfa í þenslu og brambolt.
Hvers vegna siglir Alcan með hráefni burt frá Ástralíu, hingað norður undir Íshaf? Hingað, þar sem heitir Straumsvík við Hafnarfjörð? Ef Alcan vill svo mjög veita fólki atvinnu, hvers vegna reisir það ekki álver sín á Indlandi? Þar búa margir. Þar er mikil ómegð. Á Indlandi eru mörg, stór vatnsföll. Hvers vegna siglir það með drekkhlaðin skip af hráefni framhjá Indlandi, burt frá foreldrum svangra barna, burt frá fátæku fólki sem vantar vinnu? Það er vegna þess að það er gott að græða í Hafnarfirði. Gróðinn, ástæða hnattsiglingarinnar, myndast úr virkjunum, því þaðan er raforkan í álver tekin.
Álverið í Straumsvík gengur ekki á góðmennsku og velvild Alcan gagnvart Hafnarfirðingum. Álverið í Straumsvík gengur fyrir gróða úr sunnlensku vatnsfalli sem heitir Þjórsá. Þaðan kemur grundvöllurinn og gróðinn í formi raforku sem er svo til ókeypis. Svo mikið ókeypis að það má enginn vita það! Annars væri Alcan ekki í Hafnarfirði. Alcan reisti heldur ekki Hafnarfjörð. Það gerðu Hafnfirðingar sjálfir.
Enginn Hafnfirðingur getur tekið ákvörðun með eða móti stækkun álvers, öðru vísi en að hafa bein áhrif á hvað verður um íslenska náttúru. Án þess að hlutast til um á beinan hátt, hvernig henni reiðir af. Ekkert byggðarlag og enginn bær á Íslandi fær sitt álver án þess að leggja hramminn á óspillta íslenska náttúru.
Orðið íbúalýðræði hefur fengið nýstárlega merkingu í Hafnarfirði. Meðan stjórnmálaflokkar reyna að koma sér saman um þak á kynningarkostnaði vegna komandi alþingiskosninga og ríkið hyggst verja um 15 milljónum til sömu hluta, eyðir erlenda álfyrirtækið Alcan fleiri tugum milljóna til áróðurs í Hafnarfirði, til að hafa sitt fram í komandi kosningu. Þar eru engar hömlur, ekkert þak, á meðan einstaklingar í Hafnarfirði og víðar hafa í andófi sínu snúið við tómum vösum sínum. Svona er lýðræðið í Hafnarfirði!
Og það upplýsist einnig hér með að þegar þessi grein er skrifuð, tveim dögum fyrir kosningu í Hafnarfirði, þá eru enn landeigendur við Þjórsá sem enginn virkjunaraðili hefur rætt við, þrátt fyrir fullyrðingar tveggja ráðherra í útvarpi þennan sama dag um að samningaviðræður við landeigendur séu vel á veg komnar.
Alcan lætur Hafnfirðinga hafa samviskubit. Sl. föstudag kom inn um bréfalúguna plakat með yfir 400 andlitsmyndum starfsmanna álversins í Straumsvík. Nöfn þeirra allra voru aftan á. Skilaboðin voru þessi: Hafnfirðingar, ef þið kjósið ekki með stækkun álversins, þá missa starfsmenn álversins vinnuna.
En hér er ekki verið að kjósa um hvort starfsmenn álversins missa vinnuna. Það styðja það nefnilega engin rök að neinn starfsmaður missi þar vinnu. Það stendur ekki til að loka svipuðum álverum annars staðar í heiminum. Forsvarsmenn Alcan segja það bara til að fá sínu framgengt.
Samviskubit. Við ættum að hafa samviskubit, Hafnfirðingar, ef við segjum ekki Nei við stækkun álvers. Við ættum að hafa samviskubit yfir að binda hendur komandi kynslóða. Við ættum að hafa samviskubit yfir að gera ímynd bæjarins okkar verri og fyrir að valda mengun. Við ættum að hafa samviskubit yfir að fjötra og eyðileggja sunnleskt vatnsfall, Þjórsá. Við ættum að hafa samviskubit yfir að sökkva jörðum fyrir austan fjall. Við ættum að hafa samviskubit yfir að eyðileggja lífríki við Þjórsá. Við ættum að hafa samviskubit yfir að taka þátt í að þurrka upp orkuinnistæðu Íslands, uppþurrkun sem þegar er til á teikniborðinu. Við ættum að hafa samviskubit yfir að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir megi njóta hluta sem við höfum notið. Við ættum líka fremur að hafa samviskubit yfir að gera nýjum hugmyndum, t.d. hugmyndum um eldfjallagarð á Reykjanesi hugsanlega ómögulegt að þróast. Við ættum að hafa samviskubit yfir öllum frumkvöðlunum, hvort sem þeir eru hámenntaðir eða ekki, sem hafa kunnáttu og færni sem á sér ekki hliðstæðu, hvergi í veröldinni, en fá ekki brautargengi fyrir stóriðjustefnu og þröngsýni stjórnvalda.
Þeir hafa líka andlit og þeir hafa líka nöfn. En þeir koma ekki inn um bréfalúguna hjá fólki. Hvað eru það mörg andlit? Hvað eru það mörg nöfn? Fjölskyldur sem missa land sitt undir jökulvatn, hvað eru það mörg nöfn?
Við þurfum að muna eftir þeim og segja Nei þann 31. mars.
Höfundur er Gnúpverji og Hafnfirðingur, móðir og opinber starfsmaður.
Athugasemdir
Það er eitthvað pláss í Gróttu.
Júlíus Valsson, 2.4.2007 kl. 18:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning