10.5.2007 | 09:44
Nei, nei, auðvitað ekki
Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila... (Úr ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins á www.xd.is Landsfundur Landsfundur 2007: Ályktun um umhverfismál og auðlindanýtingu).
Þeir vilja endilega koma að þessu með einhverjum hætti og eru reiðbúnir að leggja fram talsvert fé. (Fréttablaðið 30. apríl 2007. Ummæli orkumálastjóra um áhuga þýsks orkurisa á íslenskum orkumálum, sér í lagi djúpborunum).
Verðið sem Geysir Green Energy er tilbúið að greiða fyrir hlut ríkisins er langt umfram verðmat ríkisins sem þó hefur ekki verið gefið upp. (Morgunblaðið 1. maí 2007 um sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja).
Er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn sjái kosti einkavæðingar? Er það oft kosningamál hjá Sjálfstæðisflokki, það sem hann framkvæmir á miðju kjörtímabili? Hækka orkulindir í verði með hverri mínútunni sem líður? Býður ríkisstjórnin íslenskar orkulindir til sölu á undirverði? Bjóða stjórnvöld landeigendum núna bætur fyrir aðgang að orkulindum á því sama undirverði? Munu erlendir orkurisar leggja fram talsvert fé og koma að þessu? Verður örtröð jakkafatamanna með þúsundkalla upp úr brjóstvasanum í túnfætinum hjá hverjum bónda og á hverri hreppsskrifstofu, örtröð við hvern einasta læk, foss og hver? Getur almenningur keypt aftur orkulindir sem búið er að selja fáeinum einkaaðilum eins og kvótann?
Ef orkulindir eru einkavæddar, verður þá skrúfað frá krana öðru vísi en að borga einhverju sem kallar sig Group? Verður þá kveikt ljós öðru vísi en að borga einhverju myrkrafélagi í útlöndum sem enginn man almennilega hver á, en það á samt rafmagnið? Verður þá hellt á könnuna öðru vísi en að borga einhverjum bankanum sitt rétta okurverð fyrir? Öðru vísi en að með hverri kaffibunu renni dálítill viðbótardreitill í hinn bakkafulla vaxtalæk sem til bankanna rennur undan hallandi fjárhag heimila og hækkandi þjónustu? Verður þá almenningur í gapastokki gjaldtökunnar? Mun hann horfa á kunnugleg andlit úr viðskiptageiranum fíflast og hafa gaman af? Fíflast, eftir að hafa fengið frá stjórnvöldum á silfurfati dálítið sem gat ekki annað en hækkað í verði hundraðþúsundfalt. Munu kunnuglegir karakterar (gjarnan í félagsskap Eltons gamla John) hafa gaman af frelsi fárra á kostnað heillar þjóðar sem lét enn einu sinni plata sig?
Verður þá öldin önnur og ekkert eftir, því barmafullur bikar orkulinda Íslands og náttúruperlna verður drukkinn í botn af fyrrgreindum aðilum?
Svar: Nei, nei, auðvitað ekki. En þá þurfum við að velja að eiga Ísland heldur sjálf þann 12. maí.
Kristín Guðmundsdóttir
Höfundur er Íslendingur, Gnúpverji og Hafnfirðingur, móðir og opinber starfsmaður
Athugasemdir
Hæ mamma!
Aldeilis flott blogg hjá þér:) Glæsilegt að fá greinina birta á afmælinu!
Áfram áfram!
Ásta Sigm., 10.5.2007 kl. 14:13
Hlýlegt að lesa hér skoðanir sem slá í takt við manns eigin.
Bestu kveðjur,
Bára
Báran, 12.5.2007 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.